Um verkefnið

Réttlæti og sjálfbærni

Rannsóknarverkefnið Fókus á fjölskyldur í réttlátum umskiptum varpar ljósi á lykilhlutverk íslenskra fjölskyldna í loftslagsaðgerðum og sjálfbærni. Markmiðið er að skilja hvernig réttlát umskipti geta orðið að veruleika í daglegu lífi fólks og hvernig hugmyndir um fjölskyldu, samfélag og náttúru birtast bæði í menningu og reynslu fólks um land allt.

Verkefnið er styrkt af The British Academy.

Samvinna fræða og samfélags

Verkefnið byggir á nánu samstarfi rannsakenda, fjölskyldna og stefnumótandi aðila. Með því að tengja fræðilega greiningu við reynsluheim fjölskyldna er skapaður vettvangur fyrir opið samtal og samvinnu sem getur lagt grunn að réttlátari og raunhæfari stefnumótun í loftslagsmálum.

Tvær nálganir – ein heildarsýn

Til að nálgast viðfangsefnið er stuðst við tvær aðferðir sem saman mynda heildstæða sýn:

  • Menningarleg greining á íslenskum bókmenntum og kvikmyndum frá 1944 til dagsins í dag, þar sem skoðað er hvernig hugmyndir um fjölskyldur, náttúru og sjálfbærni hafa þróast og mótast í menningu þjóðarinnar.
  • Raddir fjölskyldna í samtímanum, þar sem 50 barnafjölskyldur víðs vegar að af landinu taka þátt með viðtölum, skapandi skrifum barna og fjölskylduljósmyndum. Þannig er byggt á lifaðri reynslu fólks með ólíkan bakgrunn og búsetu.

Réttlát umskipti í
íslensku samhengi

Ísland stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Á alþjóðavettvangi er lögð áhersla á að loftslagsaðgerðir verði réttlátar og að fórnarkostnaður og ávinningur dreifist ekki ósanngjarnt milli hópa. Þrátt fyrir það hefur hlutverk fjölskyldunnar sem samfélagslegrar grunn­einingar oft verið vanmetið í umræðunni. Þetta verkefni fyllir upp í þá eyðu með því að kanna hvernig fjölskyldur upplifa, skilja og taka þátt í loftslagsaðgerðum og hvernig þessi reynsla getur varpað nýju ljósi á stefnumótun til framtíðar.

Erum við að
leita að þér?

Við leitum að fjölbreyttum fjölskyldum sem eiga eða búa með barni undir 18 ára aldri. 

Allar fjölskyldugerðir eru velkomnar – allar raddir skipta máli.